Ábyrg framtíð
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.
Framsóknarflokkurinn
Framsókn vill skapa umhverfi fyrir ný húsnæðislán að norrænni fyrirmynd, með fyrirsjáanleika í afborgunum til 25 ára á föstum vöxtum, óverðtryggt. Markmiðið er að bæta aðgengi að húsnæðislánum með auknum fyrirsjáanleika og stöðugleika í greiðslubyrði að aukinni fjárhagslegri velferð og öryggi heimila.
Ríkið og lífeyrissjóðirnir eru í yfirburðarstöðu til að taka hagstæð lán til langs tíma, á lægri vöxtum en bankar. Með virkum fjármálamarkaði og/eða vaxtaskiptasamningum geta bankar fengið aðgang að þessum bréfum í skiptum fyrir skammtímabréf. Þannig verða til húsnæðislán sem hafa ekki sést áður hér á landi, með fyrirsjáanleika á afborgunum.
Framsókn hefur sett fram skýrar áherslur í húsnæðismálum og málefnum leigjenda sem miða að því að tryggja húsnæðisöryggi og bæta aðgengi að hagkvæmu húsnæði fyrir alla. Flokkurinn leggur mikla áherslu á að landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum. Með markvissum húsnæðisstuðningi er getum við tryggt að allir hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði. Þetta felur í sér að húsnæðismarkaðurinn sé stöðugur og að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu.
Framsókn vill halda áfram að byggja upp almenna íbúðakerfið með opinberum framboðsstuðningi, svo sem stofnframlögum og hlutdeildarlánum, til að treysta húsnæðisöryggi og tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað fyrir tekjulægri heimili.
Hlutdeildarlán eru sérstaklega hönnuð til að auðvelda fyrstu kaupendum að komast inn á fasteignamarkaðinn. Með þessum lánum getur ríkið, að gefnum ákveðnum skilyrðum, eignast hluta í íbúðinni, sem léttir á greiðslubyrði kaupanda. Þetta gerir fólki kleift að eignast húsnæði með minni eiginfjárframlagi.
Flokkurinn leggur einnig áherslu á að auka framboð lóða í samstarfi ríkis og sveitarfélaga til að mæta þörfum íbúafjölgunar og tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði. Með því að auka lóðaframboð er hægt að stuðla að fjölbreyttari húsnæðismarkaði sem mætir þörfum mismunandi hópa í samfélaginu. Framsókn vill innleiða skattahvata til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði og hvetja til byggingar á hagkvæmu húsnæði sem er aðgengilegt fyrir fleiri. Skattahvatar geta verið áhrifarík leið til að örva byggingariðnaðinn og stuðla að auknu framboði á hagkvæmu húsnæði.
Sérstök áhersla er lögð á að lækka húsnæðisbyrði fyrir tekju- og eignaminni með því að auka framboð af hagkvæmu húsnæði á leigumarkaði. Framsókn vill tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu fólks, sem er mikilvægt til að tryggja að allir hafi aðgengi að viðráðanlegu húsnæði, óháð efnahag. Flokkurinn vill einnig setja fram metnaðarfull markmið um að auka hlutfall óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis, sem nú er aðeins lítill hluti af heildarleigumarkaði, til að tryggja að fleiri hafi aðgang að hagkvæmu leiguhúsnæði. Með því að auka framboð á óhagnaðardrifnu leiguhúsnæði er hægt að stuðla að stöðugleika á leigumarkaði og tryggja að leigjendur hafi aðgengi að viðráðanlegu húsnæði.
Framsókn vill einnig auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum, sem á að stuðla að auknu framboði á leiguhúsnæði. Með því að nýta fjárfestingargetu lífeyrissjóða er hægt að auka framboð á leiguhúsnæði og stuðla að stöðugleika á leigumarkaði. Að auki vill Framsókn gera óverðtryggð húsnæðislán aðgengilegri, sem veitir lántakendum stöðugri og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði þar sem höfuðstóllinn er ekki tengdur verðbólgu.
Flokkur fólksins
Bráðaaðgerðir
- Til að mæta bráðum skorti á húsnæði verður heimiluð uppbygging tímabundinna húsnæðiseininga á dýrum þróunarsvæðum.
- Skammtímaútleiga húsnæðis til ferðamanna verður takmörkuð og regluverk um gististarfsemi í fjölbýlishúsum verður endurskoðað.
Aukið framboð húsnæðis
- Brýnt er að ráðast strax í aðgerðir með sveitarfélögum til að stórauka lóðaframboð og brjóta nýtt land. Horft verði til þess að hraða uppbyggingu Keldnaholts, Blikastaðalands og Úlfarsárdals en hægt verður að byggja þar um 18.000 íbúðir á næstu árum.
- Markmið verður sett um að 35% nýbygginga seljist á viðráðanlegu verði og 5% nýrra íbúða verði félagslegt húsnæði – Markmiðinu verður fylgt eftir.
Stofnframlög verða stóraukin til að viðhalda og stórauka uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis.
Lagaumhverfi byggingasamvinnufélaga verður endurskoðað. Breyta þarf lagareglum um fjármögnun byggingasamvinnufélaga og reglum um innlausn íbúða byggingasamvinnufélaga.
Heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðahúsnæði verði rýmkaðar í 100% eignarhlut.
Uppbygging á eignaíbúðakerfi á félagslegum grunni
Unnið verði að uppbyggingu að nýju eignaíbúðakerfi á félagslegum grunni. Þar verði horft sérstaklega til norska félagsins OBOS.
- Félagsaðild gefi fólki færi á að eignast íbúðir á viðráðanlegra verði.
Fólk fær val um að kaupa eign að fullu eða 50-90% eignarhlut. – Svokölluð hlutdeildareign/hlutdeildarleiga.
Forkaupsréttur verður veittur á húsnæðinu með tilteknum skilyrðum.
Aðkoma lífeyrissjóða að verkefninu er mikilvæg.
Tryggjum enn frekari útvíkkun hlutdeildarlána að skoskri fyrirmynd.
Nýtt húsnæðislánakerfi á Íslandi
Markmiðið verði að bjóða upp á hagstæðari húsnæðislán þar sem fyrirsjáanleiki og sveigjanleiki lántaka er tryggður. Með nýjum fjármögnunaraðferðum verður tryggt að álag á grunnvexti verði sem lægst og gagnsætt.
- Við munum taka upp húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd.
- Boðið verður upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum til allt að 30 ára.
- Meginveðsetningarhlutfall verður 80% í stað 70%. Þannig er hægt að lækka lánakjör á viðbótarlánum.
- Fjármögnun íbúðalánakerfisins verður í gegnum stóra sértryggða skuldabréfaflokka þar sem margir lánveitendur geta selt lán inn í flokkana. Með því er tryggt meira framboð sem tryggir dýpri markað sem mun skila minna álagi á grunnvexti.
- Skattafrádráttur kemur í stað vaxtabóta og fjármagn til stuðningsúrræða fyrir skuldsett heimili verður stóraukið frá því sem nú er. Skattafrádrátturinn miðar að því að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði og nýtist lág- og millitekjufólki og þeim sem nýlega hafa keypt húsnæði. Viðmið úrræðisins verða 5% nafnvextir. Umframkostnaður verður greiddur niður með skattafrádrættinum. Úrræðið verður fjármagnað með hækkun bankaskatts. Einnig verður skoðað að setja vaxtaþak á húsnæðislán eins og þekkst hefur á Norðurlöndum.
Húsaleigulög verði endurskoðuð
- Með það að markmiði að stuðla að lækkun verðbólgu og mæta þröngri stöðu leigjenda verða settar tímabundnar takmarkanir á hækkun leigu. Horft verði til sambærilegra aðgerða og gerðar voru í Danmörku.
Húsaleigulög verða endurskoðuð og tekið verður tillit til ábendinga samtaka leigjenda.
Verðtrygging leigusamninga verði takmörkuð við óhagnaðardrifin leigufélög.
- Fjárhagslegur stuðningur við samtök leigjenda verður tryggður. Þannig stórbætum við aðstöðu leigjenda gagnvart leigusölum.
- Ráðist verði í aðgerðir sem miða að því að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði. Horft verði til þess að húsnæðiskostnaður leigjenda fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum.
- Leigufélög og íbúðabyggingafélög sem rekin eru á samfélagslegum grunni halda endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á framkvæmdatíma.
- Endurskoðum álagningu ríkisins á langtímafjármögnun til óhagnaðardrifinna leigufélaga.
Lýðræðisflokkurinn
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.
Miðflokkurinn
- Miðflokkurinn styður séreignarstefnu í húsnæðismálum en leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður þannig að fjölskyldur geti valið sér það búsetuform sem best hentar.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja þessa þörf.
- Miðflokkurinn telur að of mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði hafi leitt til síhækkandi húsnæðisverðs.
- Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auka framboð lóða og auðvelda byggingaframkvæmdir.
Stefnumið:
Það þarf að ráðast í aðgerðir svo allir geti eignast þak yfir höfuðið.
Ástandið nú stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþörfum kröfum hins opinbera sem endurspeglast í óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og óþjálum byggingareglugerðum.
Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda ýti undir framboð hentugra byggingarlóða af hendi sveitarfélaga og vinni gegn þeim alvarlega lóðaskorti sem hér hefur ríkt.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á að ungt fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum, með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs.
Heimatilbúinn vandi stjórnvalda er nú að ýta almenningi til baka í verðtryggð lán, eftir að mikil aukning hefur orðið um árabil á vinsældum óverðtryggðra lána. Stjórnvöld þurfa með ábyrgum aðgerðum að sigla samfélaginu aftur í átt til lágra vaxta og stöðugleika í efnahagslífinu.
- Aðgerðir:
Einföldun regluverks, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og einfaldara og skilvirkara leyfisveitingakerfi er frumforsenda fyrir því að árangur náist hvað varðar framboð á hagkvæmu húsnæði. - Há verðbólga og háir vextir eru helsta vandamál þeirra sem hafa nýlega fest kaup á fasteign eða stækkað við sig. Ábyrgðarleysi stjórnlausra ríkisútgjalda hefur, með öðru, kallað fram hærri stýrivexti Seðlabanka Íslands en annars hefði verið þörf á.
- Til skemmri tíma þarf að ná utan um þá hópa sem standa höllum fæti vegna þróunar vaxta og verðbólgu undanfarin misseri, meðal annars með því að tryggja að heimili ráði við afborganir.
- Skoðað verði að auka heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til greiðslu inn á lán, hagkvæm breyting á lánaformum, samstarf banka og stjórnvalda hvað lausnir varðar og það sem skiptir mestu máli, að ná niður verðbólguvæntingum.
Útfærslur:
- Til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingakostnaður er hærri en markaðsverð skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%.
- Almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði 60%.
- Breytt útfærsla hlutdeildarlána kemur til greina í til að tryggja fólki innkomu inn á húsnæðismarkaðinn.
- Samstarf ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til að ýta undir framleiðslu íbúða, bæði hvað varðar framboð lóða og tímasetningu kostnaðar vegna grunninnviða tengdum nýbyggingum. Hár fjármögnunarkostnaður og mikill upphafskostnaður vegna lóða- og gatnagerðargjalda er verktökum fjötur um fót þegar kemur að því að halda samfellu í verkefnum sínum, sem dregur úr hagkvæmni.
- Á höfuðborgarsvæðinu er nærtækt að nefnda hið mikla byggingarland sem mun opnast með lagningu Sundabrautar.
- Útvíkka þarf vaxtamörk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
- Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð gagnvart viðskiptum einstaklinga og lækkuðu um helming hvað lögaðila varðar.
Píratar
Þak yfir höfuðið er mannréttindi
Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, því skal fara með húsnæði fyrst og fremst sem heimili. Öll umgjörð um húsnæðismarkaðinn verður að taka mið af þeirri sýn en það hefur vantað upp á þetta á Íslandi. Píratar ætla að tryggja nægt framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði og passa að það húsnæði sem byggt er rati á markaðinn, ásamt því að setja stífari ramma um skammtímagistingu. Efla þarf réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Gæði og fjölbreytileiki á húsnæðismarkaði eru markmið Pírata, ásamt því að vinna gegn myglu og raka og bæta lánakjör með stöðugri gjaldmiðli.
Píratar ætla að
- Tryggja næga uppbyggingu húsnæðis með því að skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf.
- Draga úr skammtímaleigu eins og Airbnb með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar eru skráðir til heimilis og herða eftirlit.
- Innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og bæta 0,7% aukafasteignargjöldum á aukaíbúðir.
- Setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
- Ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á allt of löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Vinna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
- Efla réttindi leigjenda, innleiða hvata til fjölgunar langtímaleigusamninga og verja leigjendur gegn hástökki í upphæðum leigusamninga.
- Tryggja að byggingarreglugerð skilyrði gæði eins og birtu, vistlegt umhverfi og nægan gróður við uppbyggingu.
- Endurvekja rannsóknir á myglu í Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins og standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
- Auka gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu.
Aukum framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði
Öll eiga að geta fundið húsnæði við hæfi á viðráðanlegu verði. Píratar munu fyrst og fremst ráðast í framboðsaukandi aðgerðir frekar en að fresta vandanum með aukinni eftirspurn. Tryggja þarf næga húsnæðisuppbyggingu með öruggri fjármögnun sem heldur dampi í kreppuástandi. Þannig er stuðlað að sveiflujöfnun sem styrkir framleiðni á húsnæðismarkaði. Tryggja þarf áframhaldandi öfluga óhagnaðardrifna uppbyggingu verkalýðsfélaga á íbúðarhúsnæði og stefna að því að skilyrða lífeyrissjóði til að fjármagna að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf eða um 1500 íbúðir á ári. Píratar munu gera langtímaáætlanir sem taka á innviðaskuld og húsnæðisskorti. Við viljum tryggja fjármagn snemma í uppbyggingarferlinu, til dæmis með útgreiðslu hlutdeildarlána á fyrri stigum, en það mun flýta fyrir að bygging nýs húsnæðis geti hafist.
Tryggjum að byggt húsnæði rati á markaðinn
Tiltölulega hátt hlutfall íbúða á markaði eru ekki skráð sem lögheimili. Við því þarf að bregðast til að styrkja stöðu ungs fólks og fyrstu kaupenda, og takmarka svigrúm fjárfesta til að halda húsnæði taktískt af markaði. Einnig þarf að takmarka gististarfsemi í óleyfi. Píratar vilja að húsnæði sé nýtt sem heimili frekar en fjárfesting. Slíkt er hægt að gera með lögheimilisskyldu, takmörkun á veðsetningarhlutfalli aukaíbúða við 60% og hærri fasteignagjöldum á aukaíbúðir um 0,7%. Skilyrða skal heimagistingu við íbúðir með skráð lögheimili og herða eftirlit með brotum á reglum um heimagistingu.
Styðjum við félagslega blöndun og fjölbreytt búsetuform
Píratar vilja greiða götu kjarnasamfélaga (e. co-housing) og fjölbreyttra búsetuforma. Stutt verður við félagslega blöndun byggðar, aukna uppbyggingu félagslegs húsnæðis og kvaðir lagðar á sveitarfélög um að bjóða upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði. Námsmannaíbúðum skal fjölga í takt við þörf, í nálægð við góðar almenningssamgöngur.
Eflum réttindi leigjenda og tryggjum þeim öruggt húsnæði til lengri tíma
Píratar ætla að efla réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fjölskyldufólk, svo skólaganga barna sé ekki trufluð af stanslausum flutningi. Skapa skal hvata til langtímaleigu, auka skyldur leigusala um sanngjarna umgjörð um útleigustarfsemi og vernda leigjendur gagnvart stökkbreytingu leigu. Leigjendur skal valdefla með aukinni upplýsingagjöf og ráðgjöf um réttarstöðu þeirra í samstarfi við félagasamtök.
Samfylkingin
Samfylkingin leggur áherslu á að unnið verði hratt á því stórkostlega ójafnvægi sem hefur skapast milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Þess vegna boðum við bráðaaðgerðir til að ýta undir að íbúðir nýtist til búsetu frekar en skammtímaleigu til ferðamanna og til að liðka fyrir uppbyggingu færanlegra einingarhúsa og breytingu vannýtts atvinnuhúsnæðis í vandaðar íbúðir. Með þessu er hægt að auka íbúðaframboð talsvert meira á næstu tveimur árum en áætlanir stjórnvalda hafa gert ráð fyrir og þannig temprum við fasteigna- og leiguverð.
Til lengri tíma þarf miklu fleira að koma til svo húsnæðismarkaðurinn færist í betra horf. Þar boðar Samfylkingin nýja nálgun í skipulagsmálum með einfaldari ferlum, styttri tímafrestum, skýrari undanþáguheimildum og breytingum sem ýta undir að skipulagsáætlanir séu sniðnar að raunverulegum byggingaráformum – en líka aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga við uppbyggingu innviða í nýjum íbúðahverfum svo það verði fjárhagslega sjálfbært að skipuleggja nýja byggð. Við ætlum að breyta fyrirkomulagi hlutdeildarlána og greiða þau út til byggingaraðila meðan íbúð er á framkvæmdastigi. Þannig drögum við úr fjármögnunarkostnaði og sköpum aukinn hvata til framkvæmda. Lánið verður veitt með skilyrðum um hæfilegan framkvæmdatíma og gengur áfram til fyrsta kaupanda með milligöngu HMS þegar kaupsamningur er gerður. Þá viljum við semja um stórtæka uppbyggingu hlutdeildarlánaíbúða við byggingaraðila sem uppfylla skilyrði um traustan fjárhag, þekkingu og reynslu.
Síðast en ekki síst leggjum við áherslu á stækkun óhagnaðardrifna íbúðakerfisins. Við ætlum að veita húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða minnst 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti við byggingu íbúða, nýta ríkislóðir markvisst til íbúðauppbyggingar og tryggja að þar verði stór hluti íbúða á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Auk þess viljum við styðja við uppbyggingu félagslegs eignaríbúðakerfis eins og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir og liðka fyrir aðkomu lífeyrissjóða að slíkum verkefnum. Loks viljum við leggja niður sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og koma upp einu samræmdu kerfi á vegum ríkisins með viðmiði um að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 40% af ráðstöfunartekjum.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að auðvelda fólki að eignast eigið húsnæði og stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði með fjölþættum aðgerðum. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja nægt framboð lóða með því að skylda sveitarfélög til að bjóða upp á fleiri byggingarsvæði í takt við fjölgun íbúa. Sérstök áhersla er lögð á að víkka vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins með breytingum á skipulagslögum og afnámi neitunarvalds einstakra sveitarfélaga. Samhliða þessu er stefnt að umfangsmikilli uppbyggingu samgönguinnviða, svo sem Sundabrautar og tvöföldun stofnbrauta, sem stuðlar að þróun nýrra íbúða- og atvinnusvæða.
Til að lækka byggingarkostnað vill flokkurinn einfalda byggingarreglugerðir og hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna. Auk þess er stefnt að því að breyta virðisaukaskattskerfinu þannig að ríkið skili tekjuauka til húsbyggjenda, í samræmi við markmið sem sett voru þegar kerfið var tekið upp.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að styðja heimilin með því að afnema stimpilgjöld af íbúðakaupum einstaklinga, framlengja skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán og heimila foreldrum að nýta eigin sparnað til að aðstoða börn við fasteignakaup án skattaálags. Þetta stuðlar að því að auðvelda fólki að koma undir sig fótunum og draga úr hindrunum fyrir ungt fólk og fjölskyldur á húsnæðismarkaði.
Með þessum aðgerðum vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja hraðari, hagkvæmari og réttlátari lausnir á húsnæðismarkaði, sem stuðla að minni verðbólgu og lægri vöxtum til framtíðar.
Sósíalistaflokkurinn
Tryggja þarf húsnæðisöryggi á öllu landinu. Í því felst að ráðist verði tafarlaust í umfangsmikla uppbyggingu á nýjum íbúðum á félagslegum grunni til þess að bregðast við hinni alvarlegu stöðu sem komin er upp. Sósíalistar leggja til að byggðar verði að lágmarki fjögur þúsund íbúðir á ári á næstu þremur árum og eftirleiðis nægilegt byggingarmagn á ári í kjölfarið í hlutfalli við íbúafjölda og þarfir á hverjum tíma. Ráðast verður í framkvæmdir strax.
- Tryggja þarf að þær íbúðir sem verið er að byggja verði nýttar fyrir íbúa landsins, ekki í útleigu í gróðaskyni. Líta skal til Noregs, þar sem sett hafa verið lög sem gera ráð fyrir fjórföldum fasteignaskatti á aðra íbúð sem keypt er. Með því að skattleggja eignir umfram eina má ná fram þeim árangri að draga verulega úr uppsöfnun fjárfesta á íbúðum. Til að tryggja að kostnaðinum sé ekki velt yfir á leigjendur þarf samhliða þeim breytingum að setja fram viðmið um leigu þannig að leiguverð sé í samræmi við aðrar hagstærðir á Íslandi.
- Einungis verði leyfilegt að leigja út eigið lögheimili í skammtímaleigu, eins og á Airbnb og að skylt verði að birta fasta- og leyfisnúmer eignar á auglýsingum skammtímaleigu áður en til útleigu kemur. Auka þarf eftirlit með skráningum. Gripið hefur verið til þessara aðgerða víðs vegar í löndum í kringum okkur. Hótel eru nú þegar að berjast við að fylla herbergi, sem mörg hver standa auð. Ferðamenn geta gist þar, en ekki í íbúðum á þegar sprungnum íbúðamarkaði.
- Sækja þarf íbúðir sem hafa verið nýttar til atvinnurekstrar og færa þær til almennings sem fast íbúðarhúsnæði. Það væri hægt að gera með því að breyta skattalögum til að knýja þessar íbúðir í sölu eða á leigumarkað. Slíkt er gert í mörgum löndum þar sem skattar hafa verið notaðir sem verkfæri til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að nota íbúðarhúsnæði sem gróðatæki fyrir örfáa og að það verði þess í stað gert út til fastrar búsetu fyrir fólkið í landinu.
- Farið verði í að kortleggja umfang íbúða sem standa auðar og íbúða án lögheimilisskráninga og bregðast við eftir atvikum, til að mynda með hærri skattlagningu. Markmiðið með því er að íbúðir standi ekki auðar til lengri tíma. Vísbendingar eru um að þetta sé mjög umfangsmikið vandamál og losa mætti fjöldann allan af íbúðum fyrir fólk til búsetu á meðan beðið væri eftir þeim íbúðum sem sannarlega þarf að byggja.
- Uppsetning á einingahúsum fari fram til að mæta þeim mikla skorti sem er á íbúðarhúsnæði. Þau hús eru heilt yfir mun ódýrari og hægt að reisa mun hraðar.
- Taka þarf upp langtímahúsnæðisstefnu á félagslegum grunni sem mætir þeim gríðarlega skorti sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.
Viðreisn
Við verðum að tryggja að ungt fólk geti keypt sér íbúð. Það er ekki sanngjarnt að bara þau sem eru á ofurlaunum – eða eiga ríka foreldra – geti keypt íbúð.
Tryggja þarf meiri uppbyggingu á landsbyggðinni, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu.Við þurfum að byggja meira. Miklu meira. En til þess að það sé hægt, þá þurfum við samhenta ríkisstjórn sem nær verðbólgu og vöxtum niður.
Það þarf vilja til að breyta þessu. Og það þarf að taka ákvarðanir. Það hefur fráfarandi ríkisstjórn ekki gert.
Það er ekkert útlit fyrir að húsnæðismarkaðurinn lagist á næstu árum ef við höldum áfram á sömu braut. Það verður að breyta þessu – og við í Viðreisn ætlum að breyta þessu.
Viðreisn ætlar að
- Losa um ríkislóðir þar sem hægt er að byggja 2500-3000 íbúðir.
- Framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað sem innborgun á húsnæðislán og að fyrstu kaupendur geti ráðstafað honum við útborgun á fyrstu eign.
- Einfalda byggingarreglugerðir í samstarfi við fagfólk.
Stíga skref til að gera leigumarkaðinn að betri valkosti fyrir þá sem það kjósa. - Byggja meira á landsbyggðinni.
Greiðum fólki leið að húsnæði
Lækka skal kostnað við nýbyggingar með einföldun regluverks. Þar má líta til ráðlegginga OECD. Lóðaúthlutanir sveitarfélaga skulu tryggja framboð og jafna sveiflur á húsnæðismarkaði. Hvetja ætti til að eldri íbúðir séu gerðar upp eða þeim skipt upp í stað þess að rífa alltaf og byggja nýtt.
Meginþorri húsnæðisuppbyggingar á að eiga sér stað á markaðsforsendum. Við uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis þarf huga að því að hún eigi sér stað um allt land að félagslegur hreyfanleiki sé tryggður. Jafna þarf mun á húsnæðisstuðningi til eigenda og leigjenda. Viðreisn styður ekki hugmyndir um leiguþak.
Viðreisn vill gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sér íbúðarhúsnæði til eigin nota.
Vinstri græn
Tilboð okkar í Vinstri grænum er einfalt. Við boðum breytingar í þágu almennings en ekki fjárfesta. Það er ekki til ein töfralausn á húsnæðisvandanum og við viðurkennum það. Við höfum hinsvegar áætlun til skemmri tíma, meðallangs tíma og svo lengri til tíma. Fyrst verður að leggja áherslu á úrbætur á eftirspurnarhlið s.s sérstakan vaxtastuðning og hækkun húsnæðisbóta á meðan aðgerðir á framboðshlið á borð við að festa hlutdeildarlán betur í sessi , auka stofnframlög og aðkomu hins opinbera að félagslegu húsnæðiskerfi, er hrint í framkvæmd.
Hvað hlutdeildarlánin varðar er mikilvægt að tryggja að það nái markmiðum sínum, að gefa tekjulágum, þ.m.t. örorkulífeyrisþegum, kost á því að eignast heimili.
Endurskoða þarf greiðslumat þannig að metið sé með raunhæfum hætti greiðslugetu einstaklinga til að greiða af fasteignalánum sínum.
Það sem er hægt að gera strax á fyrstu 100 dögum nýrrar ríkisstjórnar er að það verði búið svo um hnútana að fæla moldríka fjárfesta frá því að vera í samkeppni við fyrstu kaupendur. Skattalöggjöfin yrði hert með þeim hætti að brask með íbúðir verði minna arðbært.
Sömuleiðis þarf að fjármagna hlutdeildarlánin og festa þau betur í sessi þannig að þau sem falli undir skilyrðin eigi ekki að þurfa mánuðum saman að bíða í óvissu. Þá er nauðsynlegt að þrengja frekar að Airbnb útleigu þannig að fjárfestar setji frekar íbúðir á sölu frekar en að hafa þær í skammtímaútleigu. Fyrir það fólk sem hefur axlað byrðar hávaxtastefnu vegna þenslu ríka fólksins er nauðsynlegt að greiddur verði út sérstakan vaxtastuðning strax á næsta ári. Heimili landsins geta ekki beðið.
Hluti af þeirri hugsun að íbúðarhúsnæði eigi fyrst og fremst að vera heimili er rík áhersla á gæði bygginga, aðgengi og ekki síður gæði almannarýmis, skipulags og miklvægi þess að hafa aðgang að náttúru og grænum svæðum.
Almenna íbúðakerfið þarf að efla með öllum ráðum. Samkvæmt verkalýðshreyfingunni er vel hægt að byggja meira ef byggingarhæfar lóðir væru í boði. Ástæðan fyrir lóðaskorti er meðal annars sú að sum sveitarfélög sem eiga land ráða vart við þær fjárfestingar sem til þarf til þess að leggja frárennsli, götur og rafmagn ásamt öðrum innviðum sem þarf, t.a.m. leik- og grunnskóla. Því teljum við í Vinstri grænum að ríkið þurfi að hafa fleiri tæki til þess að aðstoða sveitarfélög sem gera samninga við ríkið um húsnæðisuppbyggingu við fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum.
Samhliða þessu viljum við fara í viðræður við bæði sveitarfélög og verkalýðsfélög um að endurreisa eignaríbúðakerfið á félagslegum forsendum eða verkamannabústaðakerfið.
Lausn til lengri tíma.
Höfuðvandi i húsnæðismarkaðar á Íslandi eru miklar sveiflur í uppbyggingu húsnæðis. Með því að endurreisa félagslegt húsnæðiskerfi, sem er langtímaverkefni og koma betra skipulagi á framtíðaruppbyggingu getum við komist hjá því að miklar sveiflur verði í uppbyggingunni. Með þessu ásamt því að gera tæknilegar breytingar á því hvernig Seðlabankinn skilgreinir verðbólgu og bregst við henni teljum við að taka megi fyrir þá helstu orsakavalda sveiflna á uppbyggingu húsnæðis .
Vandinn verður ekki leystur með afregluvæðingu né með því að leggja blint traust sitt á markaðsvæðingu og fjárfesta.